Sagan

Kafli þessi er tekinn úr bók Björns Ingólfssonar sem ber heitið ,,Brot úr byggðarsögu - Mannlíf í Grýtubakkahreppi í 150 ár'' (Björn Ingólfsson, 2013). Íþróttafélagið Magni þakkar honum fyrir hans framlag fyrir að taka saman og varðveita sögu okkar ástkæra félags. Við viljum auk þess lýsa þakklæti okkar í hans garð fyrir að fá að deila þessu efni á heimasíðu félagsins og bendum áhugasömum lesendum að fjárfesta í bók hans.
 
 

26. ÍÞRÓTTAFÉLAGIÐ MAGNI 

Fótboltabaktería stingur sér niður

Knattspyrnuíþróttin var í frumbernsku hér á landi þegar ungir menn í Laufássókn, Eiður Árnason í Pálsgerði og Páll Pálsson í Borgargerði, keyptu sér „hnött“ sér til gamans sumarið 1915. Nokkur fótboltafélög höfðu þó verið stofnuð; Fótboltafélag Reykjavíkur (KR) 1899, Knattspyrnufélag Vestmannaeyja 1903, Fram 1908 og Valur 1911. Þessi fjögur lið tóku þátt í fyrsta Íslandsmótinu sem haldið var í júní 1912. Blöðin birtu fréttir af mótinu. Í Ísafold er að finna fyrstu hérlenda lýsingu á knattspyrnuleik, skrifaða af einhverjum sem nefnir sig Ego. Hún gefur lýsingu íþróttafréttamanna nútímans ekkert eftir.[1]

 

Eiður Árnason.  SG

Í Lögréttu er frásögn af öllu mótinu og einstökum hápunktum þess: 

Málin gerðu: 1 mál Lúðvík Einarsson og 2 mál Benedikt G. Waage; síðasta málið var hið fallegasta, sem hjer hefur sjest. Kjartan Konráðsson sparkaði hornspark og Benedikt setti hann í mál með höfðinu.[2]

Í þessari grein er orðið knattspyrna notað í fyrsta skipti í umfjöllun blaða um þessa íþrótt. Fram að því hafði verið talað um fótbolta eða knattspark eða soppleik. Í Eimreiðinni segir frá leikmótum Norðlendinga sem haldin voru fyrst 1909. Keppt var í göngu, sundi, soppleik, hástökki og langstökki. Þar segir neðanmáls um soppleik „Svo kallast knattspark eða „fótboltaleikur" í Karlamagnússögu, og virðist réttast að nota það nafn.“[3] 

Ekki er hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær fótboltabakterían stakk sér niður í Grýtubakkahreppi en hún fór fyrst að grassera þegar Eiður og Páll keyptu „hnöttinn“. Það kveikti í fjölda ungra manna úr sókninni sem fóru að iðka knattspark með þeim. Leiðbeinandi þeirra og leiðtogi var Magnús Björnsson, 19 ára prestssonur í Laufási. Hann hafði kynnst knattspyrnunni í Reykjavík þar sem hann var við nám og náð góðum tökum á boltanum. Þeir sem mundu hann áratugum seinna, svo ekki sé minnst á þá sem fengu að spila með honum, höfðu mörg orð um leikni hans með boltann. Og honum var fyrst og fremst þakkað að Íþróttafélagið Magni varð til.

Magnús Björnsson.   SG

Umf. Bifröst var nýstofnað og Umf. Dagsbrún nýlega lagst í fimm ára dvala. Ungmennafélög einbeittu sér að öðru en fótbolta. Þess vegna varð að stofna fótboltafélag. Það gerðist 10. júlí 1915. Segir um það í fyrstu fundargerð félagsins:

Eftir því sem fleiri urðu leikmótin, því fjölmennari urðu þau og fóru reglulegar fram, þegar menn fóru að kynnast meginatriðum leikreglanna. Á einu slíku leikmóti sem haldið var á svonefndri Geitakofagrund neðan við Skarðstún, var að loknum knattleik skotið á lítilsháttar málfundi þar í brekkunni og á þeim fundi komu eftirtaldir menn sér saman um að stofna knattspyrnufélag hér í sveitinni.[4]

 

Magnaliðið 1918. Aftast: Jón Björnsson, Ingimundur Árnason, Magnús Björnsson, Þorsteinn Ágústsson, Sæmundur Guðmundsson. Miðröð: Kristinn Jónsson, Björn Björnsson, Haraldur Baldvinsson. Fremst: Þórður Jónsson, Þengill Þórðarson, Friðrik Kristinsson.  SG

Á fundinum voru sextán stofnfélagar: Bjarni Áskelsson og Jóhannes Áskelsson á Skuggabjörgum, Jón Jóhannsson, Arngrímur Kristjánsson, Sigurður Ólason og Björn Jóhannsson Skarði, Björn Árnason og Eiður Árnason Pálsgerði, Aðalbjörn Kristjánsson Miðgerði, Páll Pálsson Borgargerði, Magnús Björnsson og Björn Björnsson Laufási, Sæmundur Guðmundsson Lómatjörn, Kristinn Pálsson Nesi, Þórður Jónsson Hóli og Óskar Jónsson Kolgerði. Í fyrstu stjórn voru kosnir Björn Björnsson formaður, Björn Jóhannsson ritari og Eiður Árnason féhirðir.

Björn Björnsson. fyrsti formaður Magna   SG

Síðar á árinu gengu í félagið Jóhann Þorsteinsson Lómatjörn, Agnar Gíslason Miðgerði, Stefán Vilmundarson, Kristján Jónasson, Þengill Þórðarson, Baldvin Kristinsson og Haraldur Baldvinsson Höfða, Kristinn Jónsson Hjalla, Friðrik Kristinsson Hléskógum, Ingimundur Árnason Grenivík og Halldór Jónsson Grímsnesi. Stofnfélagar töldust því 27 að lokum.

Fótboltavöllur var enginn sem nærri má geta þótt víða væru blettir eins og Geitakofagrund sem hægt var að notast við. Í landi Hléskóga var Litliflötur, sæmilega slétt grund af hæfilegri stærð og þar að auki í miðri sveit. Þar var gott að sparka bolta. Á fyrsta félagsfundi var samið við Friðrik Kristinsson að hann lánaði félaginu Litlaflöt endurgjaldslaust meðan hann byggi í Hléskógum. Þar var síðan aðalleikvöllur félagsins á annan áratug og var jafnvel stundum notaður eftir að völlurinn var gerður á Grenivíkurhólum.

Fyrsta árið var félagið ýmist kallað Fótboltafélagið í Grýtubakkahreppi eða Knattspyrnufélag Grýtubakkahrepps. En 13. ágúst 1916 var ákveðið er með níu atkvæðum gegn fjórum á félagsfundi að félagið skyldi heita Magni. Ári seinna Íþróttafélagið Magni þegar samin voru fyrstu lög félagsins.

Allar ákvarðanir félagsins voru teknar formlega á félagsfundum.  Á öðrum félagsfundi var þetta bókað:

1. Að merkja leikvöll. Frsm. Magnús Björnsson. Málið töluvert rætt. Svohljóðandi tillaga samþ. Fundurinn samþykkir að merkja skuli leikvöll í dag.

3. Hliðkaup. Frsm. Haraldur Baldvinsson. Fjekk málið góðar undirtektir og var töluvert rætt. Samþ. svohljóðandi tillaga: Fundurinn telur nauðsynlegt fyrir félagið að eignast hlið. Viðaukatillaga frá Aðalbirni í Miðgerði samþ.

a) Haraldur Baldvinsson kaupi efni í hliðin.

b) Þórður Jónsson flytji efnið upp á Litlaflöt.

c) Jón Jóhannsson og Aðalbjörn Kristjánsson smíði hliðin.

 

Sigurlið Magna á Norðurlandsmóti 1934. Aftast: Finnur Benediktsson, Mikael Þórhallsson, Jóhann Adolf Oddgeirsson, Þorsteinn Ágústsson, Hermann Stefánsson. Miðröð: Valtýr Guðmundsson, Haraldur Jónsson, Alfreð Pálsson, Sverrir Guðmundsson, Sigursteinn Jónsson, Ragnar Hörgdal. Fremst: Jóhann Bessason, Þóroddur Jónsson, Árni Sigurjónsson, Þórlaugur Gunnlaugsson og Vernharð Oddgeirsson.  SG

Þannig var byrjunin. Áhuginn var mikill. Menn settu ekki fyrir sig vegalengdir og létu sig ekki muna um að hlaupa eða ríða framan úr Skuggabjörgum og utan úr Grímsnesi á hverjum sunnudegi til að fara á æfingu á Litlafleti.

Upphaflega var  samþykkt að fyrsti búningur félagsins skyldi vera bláar peysur og hvítar buxur. Þegar kom að fyrsta kappleik var búningurinn alhvítur með nafni félagsins á brjóstinu.

Fyrsta keppnisferðin var farin austur á Vatnsendabáru sumarið 1917 þar sem SÞU hélt fjölmennt íþróttamót.[5] Magni keppti við Reykdælinga og sigraði 4:1. Sama ár var fyrsti alvöru kappleikurinn á Litlafleti. Fótboltasamkeppni kölluðu sumir þessa nýjung í félagslífinu.[6] Þar sigraði Magni Svalbarðsströndunga með fjórum mörkum gegn engu.

Sumarið 1918 vann Magni UMFA á Akureyri 4:2 og aftur ári síðar 2:1. Fyrir þann sigur hreppti Magni  Knattspyrnuverðlaun fjórðungsins, silfraðan fótknött í fullri stærð sem félögin keyptu í sameiningu og kepptu um sín á milli. Árið 1920 sá Magni sér ekki fært að mæta vegna þess hve margir úr kappliðinu voru komnir til róðra og þá féll keppnin niður. Næsta ár vann UMFA og 1922 voru Þór og Mjölnir farin að blanda sér í baráttuna um titilinn. Úrslit þess móts fóru þannig:

Frétt í Íslendingi 28. júní 1918.

Magni - Mjölnir 10:0

Þór - UMFA 5:0

Magni - Þór 3:1

Mjölnir UMFA 0:0

UMFA - Magni 3:1

Þór - Mjölnir 7:1[7] 

Magni og Þór hlutu jafnmörg stig og í úrslitaleik þeirra á milli bar Þór sigur úr býtum.

 

Magnaliðið 1935. Aftast: Þórlaugur Gunnlaugsson, Steingrímur Vilhjálmsson, Hermann Stefánsson, Þorsteinn Ágústsson, Sverrir Guðmundsson. Miðröð: Þórður Jakobsson, Ísak Vilhjálmsson, Friðbjörn Guðnason, Þóroddur Jónsson, Jóhann Adolf Oddgeirsson. Fremst: Finnur Benediktsson, Árni Sigurjónsson og Jakob Gunnlaugsson.  SG

Knattspyrnumót Norðlendinga var fyrst haldið árið 1921 og upp frá því nokkuð reglulega næstu fjóra áratugi eða meira. Aðallega voru það þrjú lið sem kepptu; Akureyrarliðin KA og Þór og KS á Siglufirði. Magni var nokkuð oft með og nokkrum sinnum Völsungur á Húsavík, síðustu árin sameinað lið frá HSÞ.

Árið  1934 tókst Magna að vinna þetta mót[8] og árið eftir var það haldið á Grenivík. Komið var fram í október þegar mótið komst á. Bar þar helst til tíðinda að þegar Þór og KS höfðu leikið í klukkutíma og staðan var 4:1 fyrir Þór var leikurinn flautaður af því komið var svartamyrkur.[9]

Á þessum fyrstu áratugum var Magni með eitt af mjög fáum alvöru fótboltaliðum á Norðurlandi og náði oft að vinna „stórliðin“ á Akureyri. Einn af gömlu kempunum úr þessu „gullaldarliði“ Magna, Friðbjörn Guðnason, var einhvern tíma inntur eftir hvernig þeir hefðu náð þeim árangri:

Við höfðum þetta mest á seiglu og dugnaði, minna á knattleikni. Við reyndum að þvælast þetta fyrir þeim og verjast í fyrri hálfleik. Þá var enginn vandi að vinna í síðari hálfleik. Aldrei heyrðist að nokkur maður væri lúinn. Ekki einu sinni eftir að hafa hossast á smábát til Akureyrar og spilað tvo leiki hvorn á eftir öðrum.

Að seiglast, það var í senn takmark og leikaðferð. Í leik á móti einhverju ótilgreindu liði á Akureyri röðuðu Magnamenn inn mörkum og mótherjarnir vildu hætta og gefa leikinn upp á 12 marka mun. Þá sagði formaðurinn, Þorsteinn Ágústsson í Gröf: „O, ætli maður nuddi ekki“. Leikurinn endaði 11:0  fyrir Magna.[10]

Líklega hefur þetta verið leikurinn við Mjölni sem getið er hér á undan og hafi skeikað um eitt mark í minni heimildarmanns.

Á fyrstu árum félagsins hefur harkan líklega verið meiri en leiknin. Einhver náungi sem kallaði sig Þorgrím skrifaði í Íslending haustið 1918 lýsingu á leik Akureyringa við dáta af dönsku herskipi og bar hann saman við annan leik: „Kom jeg á mót það í vor, er þeir áttust við Höfðhverfingar og Akureyringar. Það var ófrýnn leikur. Þar voru hryndingar og pústrar. Þessi síðari leikur sýndi miklu meiri leikni og hafði langt um meira íþróttagildi en hinn fyrri.“[11] 

Á fyrstu fjórum áratugum Magna var hóað saman í lið, þegar hægt var, og æft, misjafnlega mikið og misjafnlega oft. Þjálfari var enginn en einn úr félaginu kosinn til að geyma boltann og boða til æfinga. Ef náðist í lið var reynt að fá að spila við lið út öðrum sveitum.

Í bókum félagsins segir fátt af þeim leikjum en Kristinn Vilhjálmsson bóndi á Þorsteinsstöðum hefur á 20 ára tímabili getið fimm leikja sem allri voru leiknir í nóvember og dregur þar upp ákveðna mynd af aðstöðu knattspyrnumanna þess tíma. Kristinn spilaði ekki fótbolta en hann fylgdist vel með hvað gerðist í sveitinni og margt af því rataði í dagbók hans.  

Föstudag 4. nóvember 1932 fór fram fótboltakappleikur á Laufássléttum milli Svalbarðsströndunga og Höfðhverfinga í sunnan hvassviðri og rigningu. Áhorfendur voru yfir tuttugu og gengu yfir Fnjóská á ís. Höfðhverfingar gerðu fjögur mál móti einu.

Sveinn  „velgjörðamaður“ Sigurbjörnsson og Matthildur Þórhallsdóttir.   SG

Laugardaginn 29. nóvember 1942 kepptu tíu Höfðhverfingar í knattspyrnu við Svalbarðsströndunga. Snæbjörn á Nolli flutti þá inn eftir á bát og þeir unnu 4:1.

Sunnudag 10. nóvember 1946 spilaði Magni við Akureyringa en Kristinn getur ekki um úrslit. Ítarlega lýsingu Sigmundar Björnssonar á þeim leik er hins vegar að finna í Degi. Leikurinn var „yfirleitt bragðlaus og daufur út í gegn“, segir Sigmundur en Magnamenn unnu 2:1 enda „hafa þeir nú lagt mikið af löngu spyrnunum á hilluna, en tekið upp styttri sendingar er munu reynast þeim haldbetri.“[12]

Eftir þennan leik lögðust af bæði langar og stuttar spyrnur og fréttist ekki af þessu félagi í nokkur ár. Hörðustu liðsmennirnir voru farnir að eldast, yngri ekki tilbúnir að taka við. Breytingar í atvinnuháttum höfðu líka áhrif. Þótt fótbolti væri skemmtilegur var jafnvel ennþá meira freistandi að skella sér á síld og verða ríkur. Komið var að hálfleik hjá Íþróttafélaginu Magna. 

Í endurnýjun lífdaga

Um 1950 tóku sig nokkrir ungir menn saman í andlitinu og héldu á fund formanns félagsins, Þorsteins Ágústssonar í Gröf, og kváðust vilja fara að spila fótbolta fyrir Magna. Þetta voru Oddgeir Ísaksson, Árni Björn Árnason, Grímur Bjarnason og Jón Friðbjörnsson. Þorsteinn brást glaður við að finna nýtt lífsmark í félaginu og aftur var farið að æfa.

Haustið 1952 fór þetta nýja lið tvær keppnisferðir sem bókaðar voru í dagbók Kristins á Þorsteinsstöðum. Föstudaginn 2. nóvember 1952 var fótboltaleikur milli Grenvíkinga og Svalbarðsströndunga. Grenvíkingar unnu 6:0. Hálfum mánuði seinna kepptu þeir við Eyfirðinga á Hrafnagili og unnu 3:2.

Af einni ferð hefur Kristinn þó misst, þá sigldi Þorsteinn formaður með þetta nýja Magnalið á Frosta til Ólafsfjarðar að spila við heimamenn þar. Magni náði sigri. Í liðinu voru Hörður og Jakob í Gröf, Grímur og Áskell á Bjargi, Björgvin og Vernharð á Hlöðum, Friðrik og Jakob á Finnastöðum, Árni Björn í Grenivík, sem var markmaður, Jón á Sunnuhvoli, Jóhann í Hólakoti og Pétur í Höfðabrekku.[13]

Magnaliðið um 1960: Loftur Jón Árnason, Gunnar Stefánsson, Hörður Þorsteinsson. Þórsteinn Jóhannesson, Ásgeir Axelsson, Friðrik Eyfjörð, Jón Friðbjörnsson, Sveinn Jóhannesson. Fyrir framan: Oddgeir Ísaksson, Björgvin Oddgeirsson, Hörður Þorsteinsson.   SG

Var svo kyrrt um skeið í herbúðum Magna. En haustið 1958 var hann formlega vakinn af dvalanum. Formaður HSÞ, eldhuginn Óskar Ágústsson, hvatti heimamenn til dáða og fékk tvo fyrrverandi skólasveina á Laugum, Svein Sigurbjörnsson og Áskel Egilsson, til þess að ýta málinu af stað. Þeir sóttu ársþing HSÞ um vorið ásamt Pétri Axelssyni. Óskar kynnti Svein fyrir fundinum sem einn mesta velgjörðarmann HSÞ því hann hefði unnið það afrek að gera óvirkan stigahæsta einstakling UMSE í frjálsíþróttum. Á Landsmóti UMFÍ árið áður var Matthildur Þórhallsdóttir ekki aðeins stigahæst Eyfirðinga heldur allra kvenna á mótinu en hætti keppni eftir að hún hóf búskap með Sveini.[14]

Í nóvember var boðað til fundar og kosin ný stjórn. Formaður var kjörinn Pétur Axelsson og meðstjórnendur þeir Áskell Egilsson og Friðrik Eyfjörð.  Hélt sú stjórn aðalfund um næstu áramót  og gengu þá 60 manns í félagið.[15]

Pétur Axelsson, fyrsti formaður Magna eftir hlé.    SG

Alvöru knattspyrnuþjálfara hafa Magnamenn líklega kynnst í fyrsta sinn þegar Arngrímur Geirsson kom á vegum HSÞ og var eina viku í byrjun júní 1958 og aftur ári seinna. Arngrímur var fyrst og fremst frjálsíþróttaþjálfari en tími hans hjá Magna fór mest í knattspyrnu. Nokkrir Magnamenn spiluðu með liði HSÞ í Norðurlandsmóti á þeim árum, til dæmis Jón Friðbjörnsson, Friðrik Eyfjörð, Hörður Þorsteinsson, Jakob Þorsteinsson og Jón Þorsteinsson sem var þeirra langyngstur.[16]

Fyrir landsmót UMFÍ á Laugum 1961 kom Ellert Sölvason, þekktastur sem Lolli í Val, og þjálfaði lið HSÞ. Hann fór á milli félaga til að leita uppi efnilega leikmenn. Hjá Magna fann hann tvo; Jón Friðbjörnsson og Jón Þorsteinsson. Sá fyrrnefndi gat þegar til kom ekki leikið með vegna meiðsla. Árin þar á eftir fóru Magnamenn á æfingar á Laugum eða Húsavík hjá þjálfurum HSÞ. Stundum komu þeir til Grenivíkur. Það voru Valsmennirnir Gunnar Gunnarsson og Hermann Hermannsson og Skagamennirnir Guðjón Finnbogason og Björn Þór Guðmundsson. Karl Guðmundsson, síðar landsliðsþjálfari, kom líka þar við sögu.[17]

Þjálfari var fyrst ráðinn til Magna sumarið 1971, Aðalsteinn Sigurgeirsson á Akureyri. Liðið fór um og spilaði við liðin í kring; Reyni Árskógsströnd, Völsunga, Þór, KA og fleiri. Að sumri loknu voru menn tilbúnir að skrá sig í Íslandsmót. Magnús Jónatansson var ráðinn þjálfari, slagurinn í Íslandsmótinu hófst og hefur staðið allar götur síðan. Magnús þjálfaði í þrjú ár, þá tók við Benedikt Guðmundsson og síðan hver af öðrum, Jón Lárusson, Þormóður Jónsson, þá Magnús aftur o.s.frv.[18]                                  

Síðan Magni hóf leik í sínu fyrsta Íslandsmóti 1972 hefur á ýmsu gengið. Liðið byrjaði í 3. deild en skaust upp í 2. deild 1979. Náði þó ekki að standa þar við nema eina leiktíð. Eftirminnilegasti leikur þess sumars var við landslið Grænlendinga sem Magni vann 2:1.

 Haustið 1989 datt félagið niður í 4. deild en náði sér rækilega upp aftur næsta sumar með fullu húsi stiga og Íslandsmeistaratitli í 4. deild. Aftur féll félagið niður í 4. deild 1993 og var þar næstu þrettán árin. Deildin breytti að vísu um nafn á þeim tíma og hefur heitið 3. deild síðan 1997 þegar farið var að nefna efstu deildina úrvalsdeild eða í höfuðið á helstu styrktaraðilum sínum.

Árið 2006 var Magnaliðið það sprækt að það náði að komast upp í 2. deild. Lenti sumarið eftir í næstneðsta sæti og hefði þar með fallið ef ekki hefði viljað svo heppilega til að fjölgað var í deildinni einmitt það ár.

Lokastaðan í 2. deild 2008. - Morgunblaðið 22. sept. 2008

Sumarið eftir gekk aftur betur og Magni endaði ofan við miðja deild í góðum félagsskap. En sú gleði stóð ekki lengi því félagið varð að láta sér lynda fall í 3. deild haustið 2009. Þar hefur Magni setið síðan, alltaf séð hilla undir efsta sætið en aldrei náð alla leið.

 

Völlurinn

Fyrstu ár Magna var Litliflötur besti staður sem völ var á til að spila knattspyrnu. Félagsmenn dreymdi þó um að koma sér upp almennilegum velli. Á 10. starfsári félagsins voru þrír menn kosnir til að athuga vallarstæði; Friðbjörn Guðnason, Þorsteinn Ágústsson og Jóhannes Jónsson. Á sama fundi var ákveðið að stofna yngri deild í félaginu með 8 ára aldurstakmarki. Það brýndi enn þörfina fyrir góðan völl á góðum stað. Og nefndin hefur greinilega unnið sitt verk því að samþykkt var á fundi síðsumars að koma saman næsta sunnudag og vinna að vallargerð. Þá hefur sennilega verið tekin fyrsta skóflustungan að íþróttavellinum á Hólunum. Dagurinn var 30. ágúst 1925.

Á árunum 1926 og 1927 var starfandi flatarnefnd til að hrinda málinu áfram og sjá um allar framkvæmdir. Þar voru Þorsteinn Ágústsson og Friðbjörn Guðnason fremstir í flokki og með þeim fyrst Sæmundur Guðmundsson og síðar Magnús Snæbjörnsson.

Sá völlur sem þarna var gerður hefur trúlega verið í minna lagi því að 1931 var ákveðið að fá viðbót við völlinn og Kristni á Hjalla, Friðbirni á Sunnuhvoli og Jóhanni á Miðgörðum falið að sjá um það.

En þó að þessi völlur væri kominn var þó haldið áfram að að nota Litlaflöt líka og eitthvað var æft og spilað á Gljúfuráreyrum fram yfir 1960. UMF Dagsbrún og Magni voru til að mynda með sameiginlegar æfingar 1943 til skiptis á knattspyrnuvellinum og Eyrunum.

Landslið Færeyinga á Magnavelli.  BI

Nokkrum sinnum var farið í lagfæringar á vellinum á Hólunum. Eitt vandamál var erfiðast  að leysa. Völlurinn stendur í lægð og stóð oft á honum snjór fram á sumar og leysingavatn á vorin. Stundum var hann ekki nothæfur fyrr en komið var fram í júlí og á meðan þurftu Magnamenn að hlaupa út og suður að leita að æfingavöllum í öðrum sveitum. Oftast var það Sana-völlurinn á Akureyri, sléttur flötur í nágrenni við gosdrykkjaverksmiðu Sana, sem Akureyrarliðin notuðu á veturna og vorin.

Um 1990 var farið að huga að því að gera malarvöll sem hægt væri að nota til æfinga og keppni á vorin með því að slétta melinn sunnan við grasvöllinn. Haustið 1993 var lagt yfirborðslag á völlinn og vorið eftir var byrjað að nota hann. Hann var notaður í nokkur ár fyrir æfingar og leiki, meðal annars lék Magni þar bikarleik við Grindvíkinga.

 Akureyrarliðunum stóð einnig til boða að nota malarvöll Magna. Þau voru ekki mikið betur sett en Magni fyrst á vorin, urðu að notast við Sana-völlinn sem oft var ekki hægt að kalla annað en drullusvað þegar illa viðraði.

Þegar Boginn kom á Akureyri færðust voræfingar og leikir þangað inn. Líka Magnamanna. Megnið af liði þeirra átti hvort eð var heima á Akureyri. Í hönd fóru snjóléttari vetur og ekki þurfti að bíða eins lengi eftir að grasvöllurinn yrði nothæfur á vorin. Malarvöllurinn varð að lokum að bílastæði sem notað er einn klukkutíma á ári meðan fólk er að horfa á áramótabálköstinn brenna.

Grasvellinum fór stöðugt hnignandi og máttu forráðamenn Magna sitja undir miklum háðsglósum um ástand hans frá leikmönnum annarra liða. Tindastólsmenn á Sauðárkróki töluðu um kartöflugarðinn á Grenivík. Endaði með því að formaður Magna, Þorsteinn Þormóðsson skar væna þöku upp úr vellinum haustið 2010, lagði hana á vörubretti og nokkrar kartöflur ofan á og sendi formanni Tindastóls, Ómari Braga Stefánssyni. Birtist frétt um málið í Feyki og mynd af Ómari kampakátum þar sem hann tók á móti sendingunni.[19]

Ómar Bragi Stefánsson með  minjagrip úr „kartöflugarðinum“ á Grenivík.  ÓBS

Þökuskurður þessi var upphafið á langstærstu aðgerð sem gerð hefur verið á grasvellinum. Mátti segja að gerður væri algjörlega nýr völlur ofan á þeim gamla. Aðgerðin tókst það vel að Grenivíkurvöllur var valinn til að spila á einn landsleik í Norðurlandamóti 17 ára og yngri sumarið 2011. Þar unnu Svíar Færeyinga 3:0.  

 

Handbolti

Fótboltinn, sem allt snerist um, var að sjálfsögðu bara fyrir stráka. Þegar konur fóru að ganga í félagið 1936 þurfti að finna þeim einhver verkefni. Ekki gátu þær sparkað bolta. Á fundi í janúar 1937 var þess vegna kosin þriggja manna nefnd til að sjá um að æfður yrði handbolti á næstkomandi sumri. Í nefndina var kosin Fanney Oddgeirsdóttir á Hlöðum en vissara þótti að hafa tvo karlmenn með henni, Jakob Gíslason á Miðgörðum og Sverrir Guðmundsson á Lómatjörn. Fátt segir af störfum nefndarinnar en þremur árum seinna samþykkti félagsfundur að kaupa handbolta og koma á handboltaæfingum og fela Torfa Guðlaugssyni á Bárðartjörn framkvæmdina.

Hvort sem það var fyrir tilstilli nefndarinnar eða Torfa þá komu ungar stúlkur saman á þessum árum til að spila handbolta. Þær gerðu þetta eingöngu sér til skemmtunar en ekki til að keppa við lið úr öðrum sveitum og þess vegna gerði ekkert til þótt þjálfari væri enginn. Þó var meira haft við fyrir hátíðadagskrána 17. júní 1944. Þar var meðal annars keppt í handbolta á íþróttavellinum. Hermann Stefánsson kom frá Akureyri og æfði stúlkurnar svo þær næðu að sýna sína bestu takta á samkomunni.[20]

Handboltaliðið. Þórunn Björnsdóttir, Þórlaug Þórhallsdóttir, Þórgunnur Björnsdóttir, Steinunn Guðjónsdóttir, Gíslína Stefánsdóttir, Sigríður Stefánsdóttir, Oddný Guðjónsdóttir, Hildigunnur Jónsdóttir, Kristrún Guðjónsdóttir, Þorbjörg Guðmundsdóttir, Sigrún Þórhallsdóttir.   SG

 

Skíði

Áður en fundin voru upp farartæki að ferðast á í snjó var skíðaeign nauðsynleg hverjum sveitamanni. Fyrst og fremst til að auðvelda mönnum að komast milli bæja. Ekki til að keppa í íþróttum þó að Theódór Friðriksson segi að Fjörðungum hafi verið það eiginlegt að í þá hlypi kapp er þeir stigu upp á skíði.[21]

Skíðaíþróttir komust á dagskrá hjá Magna 1937. Kosin var þriggja manna nefnd sem fékk það verkefni að kaupa skíðaefni fyrir félagið fyrir allt að hundrað krónum, smíða skíði og selja félagsmönnum á kostnaðarverði. Í nefndina voru kosnir Sverrir Guðmundsson Lómatjörn, Friðbjörn Guðnason Sunnuhvoli og Bjarni Benediktsson Jarlsstöðum. Líklegt er að nefndin hafi unnið vel sitt verk, í það minnsta er vitað að bæði Bjarni og Friðbjörn smíðuðu talsvert af skíðum. Þau reyndust ágætlega ný en höfðu takmarkaðan endingartíma. Beygjurnar vildu réttast upp með tímanum. Þær voru gerðar í svokallaðri svitakistu, hitaðar í gufubaði og klemmdar í þar til gert mót þar sem þær fengu lagið. Stálkantar voru ekki settir á skíðin nema mikið væri haft við og því vildu brúnirnar fljótlega verða rúnnaðar. Mest var smíðað úr furu sem er ekki gott skíðaefni. Hikkorískíðin reyndust betur, þau voru léttari og sveigjanlegri og viðurinn var harðari. 

Á árunum 1940-1952 voru skíðakennarar starfandi hjá félaginu nokkra vetur. Það voru Akureyringarnir Magnús Brynjólfsson og Björgvin Júníusson og Siglfirðingarnir Guðmundur Guðmundsson, sem varð fjórum sinnum útnefndur skíðakóngur Íslands, og Sveinn Jakobsson.

Eftir námskeið Guðmundar Guðmundssonar 1946, voru tveir Magnamenn sendir á skíðalandsmót, bræðurnir á Hlöðum, Hákon og Björgvin Oddgeirssynir. Þeir kepptu í stökki í flokki 17-19 ára. Hákon stökk 20 metra í fyrri umferð og 24 m í þeirri síðari og náði öðru sæti.[22]

              

    Björgvin Júníusson.                      Magnús Brynjólfsson.                        Hákon Oddgeirsson.      SG

Námskeið Magnúsar Brynjólfssonar var haldið í brekkunni í Svarðarsundinu þar sem reiðvöllur Hestamannafélagsins er nú og lauk með keppni í svigi og stökki. Þar var Jón Friðbjörnsson meðal keppenda þótt ungur væri. Skíðin hafði faðir hans, Friðbjörn Guðnason, smíðað og þjálfarinn ávítaði hann fyrir að láta svo efnilegan mann vera á þvílíkum fjölum. Færið var blautt og þungt og skíðaáburður lélegur. Rennslið dugði Jóni ekki alla leið niður svigbrautina svo hann mátti ganga síðasta spölinn til að komast í mark.[23]

Annar þátttakandi var Árni Björn Árnason og var líka á skíðum sem Friðbjörn hafði smíðað. Árni Björn var svo ungur og óreyndur að þegar honum var sagt að hann hefði farið svigbrautina á færri sekúndum en Kjartan á Litla-Svæði var hann ekki alveg viss hvort var betra að mælast með háa tölu eða lága í því sambandi og þurfti að leita sér upplýsinga.

Heldur ver gekk honum í stökkinu:

Til að fá bungu á brautina var grafið úr henni neðan til í brekkunni. Maggi Binna stökk þarna 15-20 metra. Hvað aðrir stukku man ég ekki, bara mína eigin stökklengd.

Ég man vel þegar ég sat uppi á hólnum og var að bíða þess að verða ræstur í stökkið. Sunnanátt var og hláka og færi slæmt á tréskíðunum. Ég notaði því biðina til að reyna að bera kertavax eða parafín neðan í rennblaut skíðin en það gekk að sjálfsögðu engan veginn upp. Svo var ég ræstur. Ég ýtti mér eins og vitlaus maður niður alla brautina, henti frá mér stöfunum á hengjunni og hóf mig til flugs.

Lendingin var harkaleg því að ég kom niður langt fyrir ofan bunguna, steyptist á hausinn, rúllaði niður brekkuna, stakk skíðunum inn í vegginn, sem myndaðist hafði við uppgröftinn, og sat þar fastur.

Einhver úr áhorfandahópnum kallaði til mín og spurði hvort ég þyrfti á hjálp að halda.

Ég hélt nú ekki, reif mig lausan og spratt á fætur en heyrði þá um leið tilkynnta í gjallarhorni stökklengd kappans: Þrír metrar og fimmtán sentimetrar.

Frá þeirri stundu hefur mér alltaf verið meinilla við þessar tölur séu þær settar saman í röðinni 315.

Árni Björn var þriðji Magnamaðurinn sem náði því að keppa á skíðalandsmóti. Kvaddur til með engum fyrirvara af því að Þingeyinga vantaði einn mann í sveitakeppni í svigi.

Árni Björn á fyrstu skíðunum.  SG

Þetta var í páskafríinu og hann fékk Jón Friðbjörnsson með sér til halds og trausts.

Ferðin tók einar fimm klukkustundir með mjólkurbílnum inn að Knarrarbergi og þá áttu þeir eftir að ganga þaðan upp í mynni Bíldsárskarðs þar sem mótið var haldið.

Frammistaða Árna Björns á mótinu var bæði góð og slæm. Hann féll í báðum ferðum en náði samt að ljúka keppni á besta tíma Þingeyinga, þrátt fyrir 10 sekúndna refsistig fyrir bylturnar.[24]

Árni Björn Árnason.  SG

Síðasta skíðanámskeiðið hélt Sveinn Jakobsson í Sprengibrekkunni 1952 og endaði með stökkkeppni í brekkunni utan við Dal. Keppendur með honum voru Jón Friðbjörnsson, Hörður Þorsteinsson, Jakob Þorsteinsson og Vernharð Oddgeirsson. Jakob var sleipur svigmaður og hafði náð 4. sæti á skíðamóti HSÞ í Reykjadal árið áður. Þarna var lánið ekki með honum, hann féll í lendingunni og braut skíðin og var þar með úr leik. Jón stökk lengst, fyrir utan þjálfarann sem flaug niður á jafnsléttu og var heppinn að komast óbrotinn frá því.

Jón Friðbjörnsson.  SG

Jón vann líka svigkeppninna á þessu móti og var útnefndur skíðakóngur Magna. Konur kepptu bara í svigi. Þar stóð sig best Anna Margrét Bjarnadóttir á Jarlsstöðum og var fyrir það útnefnd skíðadrottning mótsins, ekki nema tæplega 10 ára.  

Eftir þetta kom aldarfjórðungs lægð í skíðaíþróttina í Grýtubakkahreppi. Krakkar, og jafnvel fullorðnir, léku sér þó á skíðum því aldrei var skortur á snjó. Stundum tóku menn sig jafnvel saman, tróðu svigbraut og efndu til keppni.

Þegar efnt var til 4 km landsgöngu á skíðum 1957 og aftur 1962 var þátttakan góð, sérstaklega í fyrra skiptið. Gengu þá allir sem vettlingi gátu valdið. Elst voru Kristjana Númadóttir á Melum og Guðjón Jónsson á Hóli. Kom engum á óvart að sjá Guðjón þarna þótt hann væri orðinn 72 ára, hann var alltaf eins og strákur, léttur á fæti. Meiri athygli vakti Kristjana, 75 ára í síðu pilsi, hnarreist á skíðunum eins og hún hefði aldrei gert annað.

Á áttunda áratugnum voru vetur snjóþungir og skíðasnjór í öllum brekkum. Þá vaknaði hugmyndin að koma upp skíðatogbraut. Í Ársriti HSÞ 1976 segir frá hugmyndum félagsins um að ráðast í 200 m skíðatogbraut með sumrinu og skíðanámskeiði sem haldið var í febrúar þar sem þátttakendur voru um 50 talsins.[25] Leiðbeinandi á námskeiðinu var Kristinn Kristinsson á Akureyri.

Formaður Magna var þá Kristleifur Meldal og hann var meira fyrir það að láta verkin tala en velta vöngum. Þess vegna var hann ekki í rónni fyrr en togbraut var komin. Það tók tvö ár. Ekki er að finna heimildir um það hvernig fyrirtækið var fjármagnað nema hvað 100 þúsund fengust frá Kvenfélaginu og í júní 1980 sendi Kristleifur beiðni til hreppsins um styrk vegna síðustu greiðslu til skíðatogbrautar sem var 720.000 kr.  

Tæknilegur ráðgjafi Kristleifs í þessu máli var vélstjóri hans á frystihúsinu, Júlíus Jóakimsson. Hann hafði ekki frekar en Kristleifur komið nokkurn tíma nálægt skíðatogbraut en var hins vegar vanur að finna lausnir á öllum þeim verkefnum sem fyrir hann voru lögð og þetta vafðist ekki mikið fyrir honum.

Komið var upp trissuhjóli á mel ofarlega í Sprengibrekkuhorninu og öðru á rafmagnsmótor í litlum skúr við gömlu svarðargrafirnar sunnan við Sunnuhvol, kaðall strengdur á milli og sett í gang. Staurar til að halda kaðlinum uppi á niðurleiðinni voru fengnir úr niðurlagðri símalínu á Látraströnd. Hægt var að fá sérstaka töng til að grípa um kaðalinn. Það var léttara en halda með berum höndunum.

Skíðatogbrautin í Sprengibrekkunni.  SG

Þetta var bylting. Þeir sem áður voru uppgefnir þegar þeir höfðu prikað þrisvar sinnum upp brekkuna gátu nú farið ótal ferðir. Aðsóknin var mikil og oft myndaðist biðröð. Þessi togbraut var góð svo langt sem hún náði en menn langaði í aðra stærri og aflmeiri. Fjárfest var í nýrri togbraut og fullkomnari; diskalyftu. Í staðinn fyrir nælonkaðalinn kom vír með þar til gerðum örmum til að stinga aftur í gegnum klofið á sér og diski til sitja á á leiðinni upp. Skúrinn var stækkaður og mótorinn.

Fólk notaði sér aðstöðuna. „Árið 1984 var gott ár hjá Íþróttafélaginu Magna. Það hófst með góðu skíðastarfi“, segir í ársskýrslu félagsins. Togbrautin í Sprengibrekkunni var starfrækt með mesta móti það árið, áhugi var mikill fyrir skíðaiðkun, sérstaklega í aldurshópnum 6-14 ára.[26]

Nýi búnaðurinn varð til muna dýrari en sá fyrri og talsverður baggi á félaginu þótt það fengi styrk frá hreppnum og fleirum. Þrautaráðið var að gefa hreppnum gripinn. Það gerðist í mars 1986[27] en þann vetur lá starfsemi skíðaráðs að mestu niðri vegna snjóleysis.[28]

Skíðatogbrautin var í notkun fram yfir 1990 en það ár var hún sögð hafa átt sívaxandi vinsældum að fagna.[29] Eftir 1995 urðu vetur svo snjóléttir að ekki var hægt að starfrækja togbrautina og að lokum var hún tekin niður.

 

Sund

Sund var aldrei stundað sem keppnisgrein hjá félaginu þó að fræg sundlaug og talsvert mikið notuð væri í Gljúfurárgilinu. Menn voru miklu meira að leika sér þar heldur en æfa kappsund. Það gerður þó bræðurnir í Hléskógum, Áskell og Valgarður Egilssynir. Áskell vakti athygli fyrir 1000 m sund á landsmóti UMFÍ á Akureyri 1955 þar sem hann náði fjórða sæti.[30]  Frá því sundi var sagt í blöðum:

Á þessu sundi synti 16 ára drengur, Áskell Egilsson úr Þingeyjarsýslu bringusund alla leiðina og svam vegarlengdina á 17:16,9 mín. sem er undir Íslandsmeti. Einnig var tekinn millitími á 400 m í þessu sundi og þá vegalengd mun Áskell einnig hafa synt undir meti. Ekki er með fullu víst hvort aðstaðan við laugina er lögmæt þannig að þessi met nái staðfestingu.[31]

Áskell Egilsson.

Áskell keppti á sundmótum á Akureyri til 1957, jafnvel eitthvað lengur, var jafnan framarlega en náði aldrei viðlíka árangri og á landsmótinu 1955.

Valgarður byrjaði að keppa þegar hann var í Menntaskólanum á Akureyri og á árunum um og innan við tvítugt keppti hann mikið og var sigursæll á héraðsmótum og Norðurlandsmeistaramótum. Í keppni milli MA og íþróttafélaganna á Akureyri haustið 1958 setti hann Íslandsmet í 500 m bringusundi.[32] Á stærri mótum fyrir sunnan blandaði hann sér gjarnan í hóp þeirra bestu og náði að sigra nokkrum sinnum. Aðalgrein hans var 200 m bringusund.

Valgarður Egilsson.  SG

Á landsmóti UMFÍ á Þingvöllum 1957 sigraði Valgarður í 200 m bringusundi en þá var fyrst keppt í þeirri grein á landsmóti. Hann endurtók leikinn á Laugum 1961, bætti árangur sinn og setti þar með nýtt landsmótsmet. Eftir það einhenti hann sér í háskólanám og hætti að keppa.

 

Frjálsar íþróttir

Frjálsar íþróttir voru aldrei sérstaklega á dagskrá hjá Magna. Eftir 1958 var þó eitthvað um að menn færu að reyna fyrir sér á héraðsmótum. Valgarður Egilsson keppti nokkuð í 1500 m hlaupi þar og á stærri mótum náði góðum árangri. Á 7. áratugnum eignaðist Magni þrjá snarpa íþróttamenn sem kepptu fyrir HSÞ á stórmótum. Halldór Jóhannesson keppti í millivegalengdum og langhlaupum, Sigrún Sæmundsdóttir lét að sér kveða í hástökki, langstökki, grindahlaupi og fimmtarþraut og Gunnar Kristinsson var harðastur í 800 og 1500 m hlaupum en keppti einnig í 400 og 3000 m ef svo bar undir. Öll skipuðu þau sér í fremstu röð í sínum greinum og kepptu fyrir Íslands hönd á erlendum vettvangi.

              

   Halldór Jóhannesson.  SG                       Gunnar Kristinsson.  SG                          Sigrún Sæmundsdóttir.  SG

Nokkur ár fékkst Sigrún Sæmundsdóttir við lítilsháttar þjálfun á heimavelli á vegum HSÞ, fleiri þjálfarar komu þaðan en áhugi var oftast dræmur. Bestum árangri náðu Ragna Erlingsdóttir og Laufey Skúladóttir á árunum kringum 1980. Þær komu oft og náðu góðri þátttöku.

Haustið 1989 réðist til íþróttakennslu við Grenivíkurskóla Þórunn Rakel Gylfadóttir, hlaupastelpa og íþróttaþjálfari úr Hafnarfirði. Við komu hennar varð mikil uppsveifla í frjálsum íþróttum. Hún notaði íþróttatímana til að kveikja áhugann og virkja keppnisandann og fékk alla með. Þegar kom að héraðsmóti unglinga hjá HSÞ mætti hún með ríflega 30 manna lið og sigraði í stigakeppninni. Sama leikinn endurtók hún á héraðsmóti utanhúss um sumarið og í Víðavangshlaupi HSÞ að auki.

Því miður stóð Rakel ekki við nema árið en áhuginn sem hún kveikti entist í um áratug, logaði skært fyrst en dofnaði svo smám saman. Margir tóku þátt í héraðsmótum, nokkrir í Íslandsmótum og einum tókst að krækja í Íslandsmeistaratitil. Það var Lovísa Gylfadóttir sem varð Íslandsmeistari í kúluvarpi innanhúss í flokki 14 ára og yngri árið 1996.

Keppnisharkan var í fyrirrúmi hjá mörgum. Gunnar Örn Birgisson og Alma Þorsteinsdóttir náðu því bæði að sigra í öllum greinum sem í boði voru á héraðsmóti.

Sigurliðið Magna á héraðsmóti HSÞ innanhúss 1990 og Þórunn Rakel Gylfadóttir.  BI

Á þessu árum voru valdir íþróttamenn félagsins í ýmsum greinum. Frjálsíþróttamenn Magna voru kjörnir Hermann Daði Hermannsson, Vala Dröfn Björnsdóttir, Þorsteinn Björnsson, Alma Þorsteinsdóttir  og Brynhildur Jóna Helgadóttir. Svo datt sá siður niður og frjálsíþróttaáhuginn fjaraði út. 

 

Borðtennis

Haustið 1982 var borðtennisborð keypt í Grenivíkurskóla. Íþróttaaðstaða var engin komin í skólann og borðtennisborðinu var ætlað að bæta það upp að einhverju leyti.

Borðtennisíþróttin varð fljótt gífurlega vinsæl í skólanum og var biðröð við borðið í hverjum frímínútum. Margir notuðu hvert tækifæri sem gafst til að spila og nokkrir einstaklingar náðu fljótt töluverðri leikni. Þeir fengu lánaðan lykil að skólanum sem vildu æfa sig á kvöldin og voru ekki mörg kvöld sem duttu úr.  Oft komust færri að en vildu.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og  Hólmfríður Björnsdóttir með Íslandsmeistarabikarinn.  BI

Héraðsmót höfðu verið haldin mörg ár í greininni og 1985 var ákveðið að prófa að senda lið þangað rétt til að sjá hvernig staðan væri. Öllum á óvart, mest spilurunum sjálfum, komu heim af þessu móti tveir héraðsmeistarar; Anna Bára Bergvinsdóttir og Ingólfur Björnsson.

Árangurinn í Héraðsmótinu varð til þess að farið var að hugsa hærra. Haft var samband við Gunnar Jóhannsson, formann BTÍ, og hann sendi norður lið sex KR-inga með Tómas Guðjónsson í fararbroddi. Þeir héldu gott námskeið og kenndu krökkunum að halda rétt á spaða og hver munur væri á góðu og slæmu gúmmíi. Hvort tveggja hlutir sem engan hafði grunað að skipti svona miklu máli.

Næsta skref var að sjá hvernig liðið stæði  á landsvísu og þrír strákar voru sendir á Íslandsmót árið 1987; Stefán Gunnarsson, Gísli Gunnar Oddgeirsson og Ægir Jóhannsson. Þeir kepptu undir nafni HSÞ og það gerðu Magnakrakkar alla tíð á Íslandsmótum.  Frammistaða þeirra var með þeim hætti að næsta ár, þegar Íslandsmót unglinga var haldið á Akranesi, sendi HSÞ fulla rútu, sjö frá Völsungi og þrettán frá Magna, þar af fjórar stúlkur. Árangur strákanna var upp og ofan en stelpurnar náðu allar verðlaunasæti.

Margrét Ósk Hermannsdóttir, Stefán Gunnarsson og Ægir Jóhannsson Íslandsmeistarar 1988.  BI

Í desember voru í fyrsta sinn send lið í Flokkakeppni, eitt drengjalið og eitt stúlknalið. Er skemmst frá því að segja að eftir seinni umferðina í mars 1988 voru strákarnir, Stefán Gunnarsson og Axel Eyfjörð, í þriðja sæti af tólf liðum sem kepptu. Stelpurnar, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Hólmfríður Björnsdóttir, stóðu uppi sem Íslandsmeistarar eftir að hafa unnið hin fjögur liðin í báðum umferðum. Mótshaldarar trúðu því áreiðanlega ekki að þær gætu komist alla leið því að við verðlaunaafhendingu voru til þrír gullpeningar en bara tveir silfurpeningar handa stelpunum þremur í Víkingi sem urðu í öðru sæti.

Um vorið fóru fjórir unglingar á Íslandsmót. Stefán Gunnarsson og Ægir Jóhannsson urðu Íslandsmeistarar í tvíliðaleik og Stefán og Margrét Ósk Hermannsdóttir urðu Íslandsmeistarar í tvenndarleik. HSÞ hafði hreppt þrjá Íslandsmeistaratitla á rúmum mánuði.

Það var auðvitað á móti öllum lögmálum að nýliðarnir, þjálfaralausir Grenvíkingar, gætu unnið Reykvíkinga sem æfðu reglulega undir stjórn færustu þjálfara. En þetta verkaði eins og vítamínsprauta og menn hertu á æfingum, fleiri blönduðu sér í hópinn og allir kepptust um að eignast sem bestar græjur.

Þjálfaraleysið var verst. Á æfingum sagði hver öðrum til. Einu sinni eða tvisvar á vetri var hægt að fá þjálfara á vegum Borðtennissambandsins. Oftast var það Albrecht Ehmann, þjálfari og leikmaður Stjörnunnar. Hann gat gert liðinu ótrúlegt gagn á einni helgi. Líklega er hægt að þakka honum meira en nokkrum öðrum velgengni borðtennisbarna á Grenivík á þessum árum. 

Albrecht Ehmann afhendir Hólmfríði Björnsdóttur, Elínu Þorsteinsdóttur og Elvu Helgadóttir verðlaun á skólamóti. Gauti Valur Hauksson í baksýn.  BI

Á ellefu árum unnu tíu einstaklingar úr röðum Magna til sautján Íslandsmeistaratitla í borðtennis; í einliðaleik, tvíliðaleik, tvenndarleik og flokkakeppni. Allir þessir titlar voru í unglingaflokkum nema meistaratitill Ægis Jóhannssonar í 2. flokki karla á Íslandsmóti 1991 og titlar Margrétar Aspar Stefánsdóttur í 1. flokki kvenna 1997 og 1998.

Verðlaunaafhending í flokkakeppni stúlkna 1995. Sigurður Sverrisson formaður BTÍ. Ellert B. Schram forseti ÍSÍ, Ingunn Þorsteinsdóttir, Vala Dröfn Björnsdóttir og Sandra Mjöll Tómasdóttir.  BI

Ingunn Þorsteinsdóttir krækti samtals í sex titla, Margrét Ósk Hermannsdóttir fjóra, Sandra Mjöll Tómasdóttir þrjá, Stefán Gunnarsson, Ægir Jóhannsson, Ingi Hrannar Heimisson og Margrét Ösp Stefánsdóttir í tvo hvert, einn gullpening eiga Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, Hólmfríður Björnsdóttir, Hjördís Sunna Skírnisdóttir og Vala Dröfn Björnsdóttir.

Á landsmótum og unglingalandsmótum UMFÍ voru þessir sömu krakkar sigursælir. Þegar Grunnskólamót BTÍ var haldið í fyrsta skipti 1989 sigraði Grenivíkurskóli nokkuð örugglega. Hann hélt áfram á sömu braut og vann öll þau fjögur grunnskólamót sem haldin voru sem liðakeppni. Eftir það var mótinu breytt í einstaklingskeppni. Grenivíkurskóli hafði ekki ráð á því lengur að senda sína keppendur svo ekki varð keppt um fleiri titla.

Á þessum árum var fast verkefni fyrir unglingalandslið í borðtennis að fara í æfingabúðir til Bretlandseyja og keppa í framhaldi af því á Opna enska skólamótinu sem haldið var í byrjun júlí ár hvert. Stefán Gunnarsson var fyrst valinn í liðið sem fór utan sumarið 1988. Árið eftir átti HSÞ sex fulltrúa í liðinu. Það voru auk Stefáns Gísli Gunnar Oddgeirsson, Axel Eyfjörð, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, Guðrún Hildur Pétursdóttir og Hólmfríður Björnsdóttir.

Keppendur Íslands á Breska skólamótinu  í Cardiff 1992:  Hjördís Sunna Skírnisdóttir , Aðalbjörg Björgvinsdóttir Víkingi, Gunnar Jóhannsson formaður BTÍ, Margrét Ósk Hermannsdóttir og Elín Þorsteinsdóttir.  BI

Á átta ára tímabili átti HSÞ samtals nítján Magnamenn í þessum unglingalandsliðsferðum. Fyrir utan þá sem þegar eru nefndir voru það Ægir Jóhannsson, Elva Helgadóttir, Elín Þorsteinsdóttir, Margrét Ósk Hermannsdóttir, Berglind Bergvinsdóttir, Hjördís Skírnisdóttir, Margrét Ösp Stefánsdóttir, Ingi Hrannar Heimisson, Ingólfur Jóhannsson, Guðmundur Þór Sæmundsson, Ingunn Þorsteinsdóttir, Sandra Mjöll Tómasdóttir og Vala Dröfn Björnsdóttir.

Margir fóru tvisvar og þrisvar sinnum.  Stærstur var hópurinn 1990, níu manns.

 

Barnastarf

Árið 1925 var opnuð leið fyrir börn inn í félagið. Engin starfsemi var þó sérstaklega fyrir þau nema hvað þau fengu að vera með á skíðanámskeiðum. Eftir endurreisn félagsins 1958 fengu strákar stundum að keppa í fótbolta við jafnaldra sína í öðrum félögum, aðallega Völsungi. Ekkert skipulag var á því starfi. Flestir strákar voru auðvitað í fótbolta hvenær sem þeir gátu og æfðu sig mest í að þvæla. Það fólst í því að komast einn með boltann framhjá öllum hinum sem venjulega voru í einni þvögu, og upp að marki og skora. Það leiddi svo til þess að aðrir voru aðallega í því hlutverki að stoppa þann sem sótti á markið og reyna að ná af honum boltanum. Þannig æfðu menn sókn og vörn. Lítið var lagt upp úr því að gefa á aðra. Ef bauðst að spila leik var einhver úr aðalliðinu fenginn til að raða niður í strákaliðið. Alltaf sama uppröðun. Fimm í framlínunni, tveir forbakk, tveir fúlbakk og einn í marki.

Sumarið 1970 var Jón Þorsteinsson fenginn sérstaklega til að segja strákum til. Líklega fyrstur í því starfi. Eftir að Magni fór að ráða þjálfara til að æfa meistaralið sitt æfðu þeir strákaliðið líka í hjáverkum. Stundum tókst þeim betur til þar. Kristos Stanajef - Mile - náði til dæmis engum árangri með meistaraliðið en „starf hans og árangur við þjálfun yngri flokka var frábær.“[33] Strákaliðið fékk að spila í héraðsmóti HSÞ og stöku sinnum við önnur lið.  

Árið 1976 gerðist það að Magni kostaði tvo unga menn á knattspyrnuþjálfaranámskeið, Jón Stefán Ingólfsson og Sverri Guðmundsson og taldi það einhverja bestu fjárfestingu sem félagið hefði lagt í. Þeir þjálfuðu unglinga bæði drengja og stúlknaflokka um sumarið.[34] 

Eftir að Jón Helgi Pétursson varð formaður félagsins 1999 var tekið til við að koma föstu skipulagi á barna- og unglingastarf. Foreldrafélag var stofnað 2001. Í fyrstu stjórn voru Eygló Kristjánsdóttir, Sigrún Rósa Kjartansdóttir, Guðfinna Steingrímsdóttir, Valdimar Pálsson og Jón Illugason. Félagið byrjaði með krafti og  sendi lið úr 5. 6. og 7. flokki á fimm mót, fyrir utan héraðs- og bikarmót HSÞ. Liðin voru styrkt með nokkrum hörðum Svalbarðsströndungum og árangurinn var góður. Til dæmis skoraði 6. flokkur á Nikulásarmótinu 27 mörk í sex leikjum en hélt sínu marki hreinu. Þetta voru allt hrein strákalið en í vönduðu, litprentuðu fréttablaði sem Foreldrafélagið gaf út um haustið var þess getið að stúlkur væru velkomnar á æfingar. 

Stúlkur áttu líka eftir að láta að sér kveða.

Lið Magna á Pæjumóti á Siglufirði 2005. Aftari röð: Hlynur Birgisson, Júlía Eyfjörð Jónsdóttir, Bjarney Rún Haraldsdóttir, Helga Margrét Freysdóttir, Jósefína Elín Þórðardóttir, Karen Sif Stefánsdóttir, Steinunn Ósk Eyþórsdóttir. Fremri röð: Sunna Björnsdóttir, Elín Margrét Eyþórsdóttir, Harpa Rún Ingólfsdóttir, Karen Björg Þorsteinsdóttir, Agnes Birta Stefánsdóttir, Auður Sif Arnþórsdóttir.     BI

Það byrjaði á Siglufirði. Sumarið 2005 fór Hlynur Birgisson, þjálfari og leikmaður Magna, á Pæjumótið á Siglufirði með tólf stelpur sem stóðu sig vel. Um haustið var hann ráðinn sérstakur þjálfari yngri flokkanna og Eymundur Lúther Eymundsson honum til aðstoðar.  Síðan þá hafa yngri flokkar Magna tekið þátt í ýmsum mótum með góðum árangri, oftar en ekki með blönduðum liðum drengja og stúlkna. Þar má nefna Strandarmótið á Árskógströnd, sem er aðeins fyrir yngstu flokkana, Króksmót á Sauðárkróki, Eimskipsmót á Húsavík, mót í Vestmannaeyjum, Blönduósi og Ólafsfirði, árlegt Goðamót Þórs í Boganum á Akureyri  og héraðs- og bikarmót HSÞ. Tvö ár tóku stelpur þátt í Íslandsmóti  4. og 5. flokks kvenna.

Svona starfsemi kostar peninga, kaup á búningum og annað. Ýmsum brögðum hefur foreldrafélagið beitt til fjáröflunar en mestu fé til starfseminnar hefur verið aflað með dósasöfnun.   

 

Félagsmál

Magnamenn hafa fljótlega komist að raun um að hæglega væri hægt að slasa sig í fótboltaleik enda hart tekist á stundum. Þess vegna stofnuðu þeir slysatryggingarsjóð 1924 í þeim tilgangi að „bæta þeim er fyrir slysi verða á æfingum eða kappleikjum félagsins, að einhverju leyti læknishjálp og atvinnutjón.“ Sjóðnum var kosin stjórn sem gaf yfirlit um störf hans á hverjum aðalfundi. Fastar tekjur voru 10% af árstekjum félagsins en auk þess hafði stjórn sjóðsins fyrirmæli um að „auka fé hans eftir þörfum og njóta til þess sjálfsagðrar hjálpar allra félagsmanna.“ Nokkrum sinnum fengu menn úthlutað úr sjóðnum en af reikningabókum Sparisjóðs Höfðhverfinga má ráða að hann hafi ekki verið notaður eftir 1950.[35]

Árið 1927 var samþykkt að taka bindindi á stefnuskrá félagsins, bæði vín og tóbaks. Þegar lög félagsins voru endurskoðuð 1932 var sett í þau ákvæði um bindindisheit. Það var frjálst en þó fengu engir innan 18 ára aldurs inngöngu í félagið nema ganga í vín og tóbaksbindindi sem þeir urðu að halda meðan voru í félaginu. Með tímanum týndist þetta ákvæði úr félagslögunum.

Í fyrstu lögum félagsins frá 1917 segir að markmið þess sé að halda uppi íþróttum í sveitinni og inngöngu geti fengið karlmenn sem náð hafi 14 ára aldri. Ekki hefur verið litið svo á að íþróttir væru fyrir kvenfólk. Breyting á þessu var borin upp og samþykkt á aðaðalfundi 1932: „Inngöngu í félagið fá allir sem náð hafa 8 ára aldri, tillag kvenna sé ½ á móti tillagi karla á sama aldri.“  Fyrstu konur gengu í félagið 1936, Steinunn Guðjónsdóttir í Gröf og Sigríður Oddgeirsdóttir á Hlöðum.

Markmið félagsins að halda uppi íþróttum í sveitinni var með tímanum víkkað út í íþróttir og félagslíf. Þá hafði Magni um árabil staðið fyrir líflegu félagslífi og það gerði hann í áratugi. Félagið gat ekki vænst þess að fá styrki frá einhverjum öðrum þannig að það varð sjálft að afla sér fjár til rekstursins. Vænlegasta ráðið var að standa fyrir skemmtisamkomum sem fólk borgaði fyrir. Skemmtanagildið varð að vera ofarlega til að fólk fengist til að opna budduna.

Í febrúar 1924 hélt Magni skemmtun á Kljáströnd. Þar var á dagskránni söngur, tvö erindi og upplestur og leikið var úr Mannamun eftir Jón Mýrdal. Fjöldi fólks var á samkomunni, sumt komið utan úr Hrísey og af Vesturlandinu. Dansað var alla nóttina.[36]

Málverk Molanders frá Kljáströnd.  Næst er Kljástrandarhúsið, hægra megin við það Gula pakkhúsið  þar sem samkomur voru  haldnar.  SG

Fjölbreytt dagskrá var á samkomum félagsins. Ein leiksýning dugði til dæmis ekki. Þegar Magni sýndi sjónleikinn Upp til selja á annan í páskum 1927 flutti Jóhann J. Kristjánsson læknir fyrirlestur á eftir.[37]

Jafnan var vandað til dagskrár og undirbúningsnefndir voru fjölmennar. Þannig var árið 1932 þegar haldin var skemmtisamkoma. Efnahagurinn var ekki góður um þær mundir því íþróttavöllurinn var í uppbyggingu. Því reið á að halda öfluga samkomu með tombólu, upplestri, kaffisölu og balli á eftir. Þannig var skipað í hlutverk í undirbúningsnefndinni: 

Til að safna dráttum: Óskar Jónsson, Bjarni Jarlsstöðum, Sverrir Lómatjörn, Haraldur Hlíð, Vernharð Hlöðum, Ragnar Hjalla, Finnur Sæborg.

Safna vísum: Sverrir Lómatjörn, Haraldur Hlíð, Friðbjörn Sunnuhvoli, Þórður Árbakka, Bjarni Jarlsstöðum.

Upplestur: Árni Gröf, Þorsteinn Gröf, Þóroddur Akurbakka.

Veitinganefnd: Þorsteinn Hjalla, Aðólf Hlöðum, Jóhann Melum.

Spilanefnd: Vilhjálmur og Ísak Svalbarði, Finnur Sæborg.

Húsnefnd: Sigursteinn Akurbakka, Jakob Holti og Óskar Kolgerði.

Samþykkt að dansa á samkomunni mest í 6 klst. Samþykkt að engum fjelagsmanni verði gefið kaffi eða aðgöngumiði á samkomunni, hvað sem þeir ynnu henni til stuðnings. Sverrir Lómatjörn kosinn til að sjá um glímur á samkomunni. 

 Svona samkomur með fjölbreyttri dagskrá voru oft haldnar. Þær gáfu mest í kassann. Það gerðu leikritin líka. Lengi voru leiksýningar næstum árviss viðburður hjá Magna, oft í samvinnu við Kvenfélagið og jafnvel Dagsbrún. Því miður var aldrei haldin skrá yfir það hvaða leikrit voru sett upp og hverjir léku en sögur fóru af hæfileikum Sigurðar Ringsted á því sviði. Þorsteinn Ágústsson og Friðbjörn Guðnason þóttu líka vel liðtækir.

Menn höfðu úti allar klær til að afla rekstrarfjár. Árið 1983 lýsti Kristleifur Meldal, formaður Magna, fjölbreyttum fjáröflunarleiðum félagsins:

Almennir dansleikir, bingó, sala lukkumiða, diskótek, rækjuvinnsla, 17. júní skemmtun, útimarkaður, sjoppusala, jólakortasala, happdrætti, við þekjum lóðir, gröfum grunna og leggjum skólplagnir, gefum út auglýsingablöð og leikjaskrá, höfum blómasölu, tökum að okkur göngur fyrir bændur og fleira mætti telja upp.

Síðastliðið sumar tóku sig til nokkrar ungar stúlkur og mynduðu öflugan fjáröflunarklúbb okkur til stuðnings. [...] Þær stóðu fyrir 17. júní skemmtun sem tókst mjög vel. Tóku sig til og prjónuðu trefla í litum félagsins og seldu á útimarkaði ásamt pottablómum. Þessi nýbreytni vakti mikla ánægju. Þessar sömu stúlkur sáu um alla sjoppusölu á leikjum sumarsins. Foringi þessa framtakssama hóps heitir Sigríður Jóhannsdóttir. Við elskum þær allar.[38]

Þessar 17. júní skemmtanir voru haldnar í nokkur ár og fóru venjulega fram á Túngötunni. Þar var meðal annars keppt í ýmsum óhefðbundnum íþróttum. Á samkomunni 1991 var til að mynda keppt um það hver gæti komið flestum farþegum inn í venjulegan fólksbíl. Birgir Pétursson sigraði með 22 farþega en tekið skal fram að enginn þeirra var fullorðinn. Bestum árangri í afturhjólaspyrnu náði Einir Heiðarsson, og komst 80,5 m á afturhjólinu einu saman.

 

Formenn Magna

Þessir hafa verið formenn Íþróttafélagsins Magna frá upphafi:

1915-1918 Björn Björnsson

1918-1919 Haraldur Baldvinsson

1919-1920 Ingimundur Árnason

1920-1921 Sæmundur Guðmundsson

1921-1926 Hermann Stefánsson

1926-1927 Þorsteinn Ágústsson

1927-1929 Friðbjörn Guðnason

1929-1932 Þorsteinn Ágústsson

1932-1936 Árni Sigurjónsson

1936-1938 Jóhann Adolf Oddgeirsson

1938-1939 Bjarni Benediktsson

1939-1942 Sverrir Guðmundsson

1942-1945 Vernharður Oddgeirsson

1945-1958 Þorsteinn Ágústsson

1958-1962 Pétur Axelsson

1962-1963 Sveinn Jóhannesson

1963-1965 Þórsteinn Jóhannesson

1965-1968 Pétur Axelsson

1968-1971 Jón Þorsteinsson

1971-1973 Grétar Guðmundsson

1973-1974 Jón Þorsteinsson

1974-1975 Grétar Guðmundsson  

1975-1976 Friðrik Þorsteinsson                    

1976-1980 Kristleifur Meldal

1980-1981 Jóhann Ingólfsson

1981-1985 Kristleifur Meldal

1985-1986 Grétar Guðmundsson

1986-1989 Kristleifur Meldal

1989-1994 Björn Ingólfsson

1994-1999 Sigríður Jóhannsdóttir

1999-2004 Jón Helgi Pétursson

2004-2008 Stefán Pálmason

2008-         Þorsteinn Þormóðsson[1] Ísafold 29. júní 1912.

[2] Lögrétta 3. júlí 1912.

[3] Eimreiðin 1. tbl. 18. árg. 1912

[4] Gjörðabók Íþróttafjelagsins „Magni“ Þessi kafli er byggður á gjörðabókum Magna nema annars sé getið.

[5] Morgunblaðið 15. júlí 1917.

[6] Dagbók Þórðar í Höfða 5. ágúst 1917.

[7] Dagur 14. september 1922.

[8] Íslendingur 21. október 1965.

[9] Verkamaðurinn 15. okróber 1935.

[10] Friðbjörn Guðnason..

[11] Íslendingur 20. september 1918.

[12] Dagur 13. nóvember 1946.

[13] Jón Friðbjörnsson 6. nóv. 2012.

[14] Sveinn Sigurbjönsson 10. nóv. 2012.

[15]Héraðssamband Suður-Þingeyinga 50 ára Afmælisrit:130

[16] Arngrímur Geirsson 8. nóv. 2012.

[17] Jón Illugason 8. nóv. 2012. Grétar Guðmundsson 10. nóv. 2012. Jón Þorsteinsson 11. júní 2013.

[18] Grétar Guðmundsson 10. nóv. 2012.

[19] Feykir 27. september 2010.

[20] Steinunn Guðjónsdóttir 30. apríl 2013.

[21] Theódór Friðriksson 1977:212.

[22] Dagur 28. mars 1946.

[23] Jón Friðbjörnsson 6. nóv. 2012.

[24] Árni Björn Árnason 21. ágúst 2012.

[25] Ársrit HSÞ 1976:28-29.

[26] Ársrit HSÞ 1984:28-29.

[27] Gjörðabók Grýtubakkahrepps 1985-1991.

[28] Ársrit HSÞ 1986:52.

[29] Björn Ingólfsson. Ræða á 75 ára afmælishátíð Magna.

[30] Saga landsmóta UMFÍ:175 og  187.

[31] Vísir 4. júlí 1955.

[32] Morgunblaðið 12. nóvember 1958.

[33] Ársrit HSÞ 1986.

[34] Ársrit HSÞ 1976.

[35] Reikningabækur Sparisjóðs Höfðhverfinga.

[36] Dagbók Þórðar í Höfða 10. febrúar 1924.

[37] Dagbók Þórðar í Höfða 5. apríl 1927.

[38] Ársrit HSÞ 1983: 30.

Björn Ingólfsson. (2013). Brot úr byggðasögu: Mannlíf í Grýtubakkahreppi í 150 ár. Reykjavík: Bókaútgáfan Hólar.