Aron Birkir valinn í U21 landsliðið

Aron Birkir Stefánsson hefur verið valinn í undir 21 árs landslið Íslands. Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari U21 karla, hefur valið hann sem einn af þremur markvörðum í hópnum sem mætir Norður-Írlandi og Spáni í undankeppni EM 2019 nú í október.

Aron Birkir verður 19 ára síðar á árinu en hann á fyrir leiki með öllum öðrum yngri landsliðum Íslands. Hann hefur verið aðal markvörður Þórs í Inkasso-deildinni síðustu tvö tímabil en Aron lék sína fyrstu meistaraflokksleiki í deildarkeppni aðeins 16 ára að aldri. Grenvíkingurinn kemur upp úr yngri flokkum Magna, faðir hans er Stefán Pálmason fyrrum formaður Magna og móðir hans Guðbjörg Heiða Jónsdóttir.

Til gamans má geta að allir markverðirnir í landsliðshópnum heita Aron. Aron Birkir (Þór), Aron Elí (KA) og Aron Snær (Fylkir). Aron Dagur (KA - í láni hjá Völsung) hefur einnig verið viðloðinn landsliðið síðustu ár. Það ber enginn annar nafnið Aron í yngri flokkum Magna og því verður það að teljast ólíklegt að við Magnamenn eignumst annan markvörð í landsliðinu á næstu árum.

Við óskum honum til hamingju með valið!


Athugasemdir