Kristleifur Meldal látinn

Kristleifur Meldal
fæddur 17. ágúst 1946 - dáinn 6. september 2022
 
Kristleifur Meldal, fyrrverandi formaður Íþróttafélagsins Magna, lést þann 6. september síðastliðinn. Kristleifur var formaður Magna frá 1976-1989 að tveimur árum undanskildum. Kristleifur kom inn í starf Magna af miklum metnaði og má með sanni segja að hann hafi rifið félagið upp með þeim mikla eldmóði sem hann sýndi í störfum sínum.
 
Kristleifur var driffjöður í hinum ýmsu verkefnum á þessum árum og átti auðvelt með að fá fólk til starfa í þágu félagsins. Fyrir hans tilstilli voru tveir félagsmenn sendir á þjálfaranámskeið sunnan heiða, sem fengu svo það hlutverk að halda utan um og efla yngri flokka starf félagsins. Hann réð einnig til félagsins þjálfara í frjálsum íþróttum og þá hafði hann veg og vanda að fjármögnun og uppsetningu skíðatogbrautar í svokallaðri Sprengibrekku, sem naut mikilla vinsælda um árabil.
 
Helsta ástríða Kristleifs var þó ávallt knattspyrnan. Hann var duglegur að keyra leikmenn á æfingar á Akureyri og ekki síður að aka yngri iðkendum í kappleiki, á héraðsmót og víðar. Barist var um að fá far með Kristleifi, enda örlátur mjög og veitti vel í sjoppum í þessum ferðum. Á hans vakt var gestrisni Magnaliðsins rómuð víða um sveitir, enda var Kristleifur gestgjafi góður. Lesa má um það í blaðagreinum frá þessum tíma, þar sem segir t.d. eftir sigurleik gegn Þrótti Neskaupstað að forráðamenn Magna [hafi boðið] öllum leikmönnum og dómurum leiksins í veglegt matarboð, slíkt er siður þeirra eftir leiki.”
 
Árið 1978 komst liðið upp í 2. deild, þá næstefstu í Íslandsmótinu, og lék þar sumarið 1979. Þetta sama sumar var leikinn eftirminnilegur leikur gegn landsliði Grænlendinga, leik sem lauk með 2-1 sigri Magna, og að sjálfsögðu var blásið til veislu að leik loknum.
 
Metnaður var lagður í þjálfararáðningar á formannsárum Kristleifs og þegar rætt var um mögulega þjálfara sagði hann ávallt að ekkert nafn væri of stórt til að hringja í, þó ekki væri nema eitt símtal. Var Kristleifur meðal annars nálægt því að landa þjálfara sem síðar átti eftir að gera garðinn frægan og til að mynda þjálfa íslenska landsliðið. Á endanum datt það þó upp fyrir þar sem umræddur þjálfari hafði ráðið sig á loðnubát um sumarið.
 
Síðar tókst að fá til félagsins þjálfara sem var fyrrverandi atvinnumaður og átti að baki farsælan feril sem leikmaður. Farið var í undirbúning fyrir viðræður og nöfn leikmanna liðsins sett niður á blað fyrir væntanlegan fund með verðandi þjálfara. Ekki tókst þó að telja upp nema 10-11 nöfn, enda fámennt í hópnum svo snemma vors. Þótti Kristleifi það ótækt og sagði að ómögulegt væri að ráða þjálfara nema hafa alvöru leikmannahóp. Voru því í snarheitum skráð niður nöfn hinna ýmsu leikmanna, þeirra á meðal nokkurra sem voru löngu hættir að spila, þar til listinn taldi 20 nöfn og hægt var að setjast við samningaborðið.
 
Fyrir fundinn, sem ég sat ásamt Kristleifi, hafði ekki gefist tækifæri til að ræða svigrúm félagsins til launagreiðslna til þjálfarans. Eftir smá almennt spjall á fundinum segir Kristleifur að nú skuli þeir koma sér að efninu og spyr hvaða laun verðandi þjálfari hafi hugsað sér. Þjálfarinn nefndi tölu, og svelgdist mér hreinlega á kaffinu þegar ég heyrði hana. Kristleifur hins vegar spratt upp úr sófanum, rétti fram höndina og sagði: Þetta er akkúrat það sem við vorum að hugsa!” Á leiðinni heim, eftir langa þögn, spurði ég loks: Hvernig eigum við eiginlega að redda þessu”. Kristleifur steig gula Lödu Sport fararskjótann í botn og svaraði: Þetta reddast”. Og að sjálfsögðu gerði það það og árangurinn þetta sumarið var hinn ágætasti.
 
Magnaliðið fór í tvær æfingaferðir til Hollands um miðjan 9. áratuginn, en slíkar ferðir voru síður en svo algengar á þessum tíma. Stóð Kristleifur öðrum fremur á bak við þessar ferðir, sem voru hinar eftirminnilegustu.
 
Allir sem voru með Kristleifi á lokahófum og öðrum skemmtunum muna vel ræður hans, sem ávallt voru fluttar af þeim mikla eldmóði sem einkenndu öll hans störf, og voru þeim sem á hlýddu mikill innblástur. Kristleifur var gerður að fyrsta heiðursfélaga Magna, og er hann enn í dag sá eini sem hlotnast hefur sá heiður. Hann var einnig handhafi silfurmerkis KSÍ, en það veitist þeim sem vinna vel og dyggilega að eflingu knattspyrnuíþróttarinnar.
 
Hvíl í friði elsku vinur - nú stofnar þú þitt eigið lið fyrir handan.
 
Með þakklæti fyrir ómetanlega vináttu í gegnum tíðina.
 
Fyrir hönd Íþróttafélagsins Magna
Jónsi og Systa


Athugasemdir