Heimaæfing - Æfingar hefjast að nýju

Heimaæfingar - 18. nóvember

FH hefur komið upp flottri vefsíðu með stóru safni af heimaæfingum af tækni- og styrktaræfingum sem að við getum gert til þess að bæta okkur. Sniðugt væri að krakkarnir myndu setja hana í 'Favourites' og þegar þau vilja fá hugmyndir til þess að æfa sig aukalega í framtíðinni geta þau valið úr mörgum flottum æfingum. 8. flokkur gerir æfingar frá Tom Byer.

 

4-5. flokkur

Við ætlum að halda bolta á lofti í upphitun en við tökum nokkrar útgáfur. Næst þurfum við fjórar keilur/skó/hluti til þess að afmarka svæði. Við förum í stefnubreytingar og í gabbhreyfingar. Æfingarnar kallast Sikk Sakk og Tetris.

 

6-7. flokkur

Við förum í nokkrar tækniæfingar en þær svipa að mörgu leyti að myndbandinu sem ég bjó til fyrir krakkana um daginn! Æfingin heitir Dansspor og eru margar æfingar inn í æfingunni sjálfri. Fyrir þá sem vilja meiri áskorun mæli ég með að reyna við Sikk Sakk æfinguna.

 

8. flokkur

Það er ekki hægt að hætta með heimaæfingarnar án þess að 8. flokkur fái að gera nokkrar æfingar frá Tom Byer! Hann er einn sá færasti í æfingum fyrir yngstu kynslóðina okkar. Við gerum átta æfingar sem koma hvert á fætur öðru

 

Æfingar hefjast að nýju miðvikudaginn 18. nóvember - Tilkynning frá ÍSÍ

Helstu breytingarnar sem snúa að íþróttahreyfingunni eru að æfingar barna- og ungmenna fædd 2005 og síðar með og án snertingar verða heimilar á ný jafnt inni sem úti. Athugið að einungis er miðað við að æfingar verði heimilar. Verið er að skoða með hvort og þá hvenær gefin verði heimild fyrir keppni. Engar takmarkanir eru settar varðandi blöndun milli hópa. Fjöldamörk í hverju rými fara eftir reglugerð um takmarkanir á skólastarfi. Leikskólabörn og börn í 1.–4. bekk grunnskóla mega vera 50 saman að hámarki en nemendur í 5.–10. bekk að hámarki 25 saman. Tveggja metra nándarmörk þarf að virða á milli þjálfara og iðkenda ef það er ekki er unnt að virða 2m. regluna ber að nota andlitsgrímu. Eftir sem áður gilda almennar sóttvarnarráðstafanir.

Íþróttir fullorðinna fæddra 2004 og fyrr, þar með taldar æfingar og keppnir, hvort sem er innan eða utandyra, með eða án snertingar, eru óheimilar.

Gildistími reglugerðanna er frá 18. nóvember til og með 1. desember næstkomandi.

 

Skilaboð frá félaginu og húsverði íþróttamiðstöðvar

Tilmæli frá okkur að foreldrar séu ekki að safnast saman í andyrinu og í sófunum í kringum æfingar á næstu vikum. Foreldrar barna á leikskólaaldri meta það sjálf hvort þau þurfi að staldra við á meðan þeirra æfing er í gangi. 


Athugasemdir